Sögur 1/4
Lára Þorsteinsdóttir
SAGNFRÆÐINGUR
„Ég vildi óska að fólk dæmdi mig ekki án þess að þekkja mig.“
„Þegar ég var lítil fannst mér skemmtilegast að lesa og vera með dýrum, sérstaklega hundum. Ég er stundum kölluð Lára hundahvíslari,“ útskýrir Lára sem hefur brennandi áhuga á sagnfræði. Hún stundar diplómanám fyrir fatlaða í Háskóla Íslands en það nám undirbýr fatlað fólk fyrir störf í samfélaginu, svo sem á bókasöfnum, í félagsmiðstöðvum og leikskólum. „Ég vinn nú þegar á leikskóla og líka á kaffihúsi,“ segir Lára.
Hingað til hefur henni ekki staðið til boða að fara í nám tengt sagnfræði en nú í haust og vor býðst henni að taka sagnfræðinámskeið í Háskólanum. Hún leggur mikla áherslu á að hér er enginn að biðja um afslátt af námskröfum en fatlað fólk þurfi að fá fleiri tækifæri til að mennta sig. Krafan er einfaldlega að fá tækifæri til jafns við aðra til að njóta sín í námi og starfi.“
Sögur 1/4
Þórir Gunnarsson
Listnemi
„Ég sé fólk öðruvísi, þannig heillast ég í listinni.“
Listamannsnafnið Listapúkinn segir Þórir einfaldlega komið til vegna þess að það er svolítill púki í honum. Frá fjögurra ára aldri var hann sífellt að mála og teikna en hætti svo og tók sér langt hlé. Árið 2008 tók hann upp penslana að nýju og hefur bæði selt fjölmörg málverk auk þess að vera útnefndur Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2021. Þórir er metnaðarfullur í listsköpun sinni og málar það sem hann hefur áhuga á hverju sinni sem getur verið allt milli himins og jarðar.
Hann hefur lengi dreymt um að mennta sig meira í listinni og sótti þess vegna um í Listaháskóla Íslands árið 2020. Þá komst hann áfram í viðtal en fékk ekki inngöngu í skólann. Árið eftir sendi hann líka inn umsókn en fékk aftur synjun. Ástæður þess voru meðal annars þær að Þórir er ekki með stúdentspróf en starfsnámsbrautir voru einfaldlega ekki í boði fyrir hann á sínum tíma. „Stjórnvöld þurfa bara að laga þetta. Lagið þetta! Gefið fötluðum tækifæri á að fara í nám og gefið þeim bara séns,” segir Þórir.
Sögur 1/4
Anna Rósa Þrastardóttir
sundþjálfari
„Ég verð að grípa hvert tækifæri sem gefst.“
Önnu Rósu líður hvergi eins vel og í vatninu sem er heppilegt því sjálf eyðir hún ómældum tíma á sundæfingum. Hún stefnir á að verða sundþjálfari í framtíðinni og hjálpa þannig öðru sundfólki að bæta sig og það sem mikilvægast er – hafa gaman. „Ég þarf að vinna og hafa fyrir hlutunum og komast í nám en það eru kannski ekki það mörg nám í boði svo ég þarf að grípa hvert tækifæri,“ útskýrir Anna Rósa.
Hún vonast til að allir fái tækifæri til að verða það sem þau langar til í framtíðinni og skorar á stjórnvöld að breyta kerfinu eins og það er í dag. „Það þarf að vera með nám sem stendur til boða fyrir fatlaða og bjóða upp á þá hluti sem hægt er að bjóða upp á til að ýta fólki lengra í því sem það vill verða. Láta eins marga hluti verða mögulegir og fræðilegt er.“
Sögur 1/4
Finnbogi Örn Rúnarsson
Fréttamaður
„Draumastarfið mitt er að verða fréttamaður.“
Finnbogi er tvítugur og lauk stúdentsprófi síðastliðið vor. Hann hefur lengi haft mikinn áhuga á fréttum og fréttamennsku og meðal annars haldið úti eigin fréttamiðli. „Það þarf að hugsa um margt. Byrja að fá kamerur og svo klippa og svoleiðis,” útskýrir hann.
Fjölbreytileiki starfsins er eitt af því sem heillar Finnboga en sjálfur hefur hann áhuga á öllum fréttum, allt frá náttúruhamförum til erlendra tíðinda og viðtala við allskonar fólk. „Bogi Ágústsson. Það er góður fréttamaður,“ segir Finnbogi og bætir við að það sé mikilvægt að auka aðgengi og menntun fyrir fatlað fólk svo það geti líka látið ljós sitt skína.